Þegar bygging Hörpu hófst árið 2007 hafði íslenskt tónlistarfólk dreymt um hljómleikasal í nánast hundrað ár, og barist fyrir honum í hálfa öld. Með tilurð Hörpu stefndi allt í að þessi draumur yrði að veruleika en þegar efnahagshrunið skall á var húsið aðeins hálfklárað og framtíð verkefnisins því óljós með öllu. Harpa hefði getað orðið ógnarstór táknmynd íslenska efnahagshrunsins, yfirgefin, hol skel í hjarta Reykjavíkur en snemma árs 2009 tók ríkisstjórnin þá djörfu ákvörðun að húsið skyldi klárað og tveimur árum síðar opnaði Harpa dyr sínar fyrir almenningi.
Á þeim tveimur árum sem liðið hafa frá því að Harpa opnaði hafa rúmlega tvær milljónir gesta sótt hana heim, Harpa orðið táknmynd upprisu og bata í stað minnisvarða um efnahagshrunið og hún hlotið fjölmörg verðlaun fyrir hönnun og arkítektúr. Harpa er draumur sem varð að veruleika og í þessari glæsilegu bók Þórunnar Sigurðardóttur er saga og tilurð hússins rekin auk þess sem hana prýða fjöldinn allur af ljósmyndum af mismunandi stigum ferlisins.
Harpa – From Dream to Reality er eiguleg og þörf bók fyrir alla sem hafa áhuga á glæsilegri tónleikahöll okkar Íslendinga.
Bókin er á ensku.